Þróun Bárðarbungu og Holuhrauns

Þróun Bárðarbungu og Holuhrauns

SigVísindaheimurinn hefur aldrei orðið vitni af slíku fyrirbæri, eins og því sem nú er að gerast undir Bárðarbungu og mælt og skráð það jafn vel. Athygli margra Íslendinga beinist nú mest að Holuhrauni af eðlilegum ástæðum. Nú er hraunið orðið rúmlega 70 ferkílómetrar að flatarmáli, ef til vill um einn rúmkílómeter (það er óvissa um þykkt hraunsins) og slagar því hátt upp í það magn af kviku, sem Surtsey gaus frá 1963 til 1965. Þetta er stórgos.   En gosið sjálft er eiginlega hálfgerð blekking náttúrunnar, því aðal sjónarspilið fyrir vísindin er ekki í Holuhrauni, heldur í eldstöðinni Bárðarbungu. En þar er sjónarspilið hulið augum okkar undir 600 til 800 metra þykkum jökli. Ég held að enginn jarðvísindamaður geti verið í vafa um að sigið, sem mælist á íshellunni á Bárðarbungu er beint tengt gosinu í Holuhrauni. Frá 16. ágúst til 29. september urðum við öll vitni af myndun kvikugangs, sem tengdi Bárðarbungu í suðri við sprungugosið í Holuhrauni um 50 km fyrir norðan. Síðan hefur gosið látlaust í Holuhrauni og Bárðarbunga sigið að sama skapi. Sennilega hefur sigið hafist strax og gangurinn byrjaði að myndast um miðjan ágúst, en nákvæmar mælingar á sigi hefjast hinn 14. september. Þá var sigdældin í jöklinum orðin 22 metra djúp, en síðan hefur sigið numið um 23 metrum í viðbót, eða heildarsig alls um 45 metrar í dag. Sig er nú um 20 cm á dag, en var áður allt að 50 cm á dag og það hefur hægt stöðugt á því.

Ég hef áður bent á hér í bloggi mínu, að sigið í Bárðarbungu fylgir ótrúlega vel kúrfu eða ferli, eins og sýnt er á línurítinu hér fyrir ofan (gögn af vef Veðurstofunnar). Kúrfunni er best lýst sem “polynomial” fylgni með þessa jöfnu: y = -0.0012x2 + 0.4321x. Innbyrðis fylgni kúrfunnar er R² = 0.99946. Þetta er reyndar ótrúlega góð fylgni. Ef allir púnktarnir liggja á kúrfunni, þá væri R² = 1.0000.   Það er mjög óvenjulegt að atburðir í jarðfræðinni fylgi svo vel og reglulega einhverri þróunarlínu. Sennilega gerist það aðeins þegar um mjög stóra atburði er um að ræða, eins og nú þegar botninn á öskju Bárðarbungu sígur reglulega niður í kvikuþróna djúpt undir í jarðskorpunni.   Sennilega er þetta landspilda, sem er um 10 km í þvermál og um 8 km á þykkt, sem sígur, eða meir en 600 rúmkílómetrar af bergi!

Það er athyglisvert að þessi reglulega kúrfa beygir af, þ.e. það hefur verið að draga úr siginu frá upphafi. Þetta gefur okkur einstakt tækifæri til að áætla hvenær sig hættir, sem er sennilega einnig sá tímapúnktur þegar kvika hættir að stryma út úr kvikuhólfinu og gos hættir í Holuhrauni. Ég hef því framlengt kúrfuna á þróunarlínunni, með jöfnunni fyrir ofan, þar til hún verður lárétt, þegar sig hættir. Það gerist eftir um 170 daga frá því að mælingar hófust, hinn 14. september. Kúrfan spáir því um goslok í lok febrúar eða byrjun mars 2015. En það eru margir þættir, sem geta haft áhrif á kvikurennslið þegar dregur úr kraftinum, einkum viðnám í kvikuganginum undir Holuhrauni og fleira. Allir þessir þættir virka í þá átt að goslok yrðu eitthvað fyrr.

Eins og ég benti á í síðasta bloggi, þá er ljóst að virka gossprungan er mjög nærri gígaröðinni, sem gaus í Holuhrauni árið 1797. Gosið í dag virðist vera nokkuð nákvæm endurtekning á gosinu í lok átjándu aldarinnar. Það er hughreystandi og styrkir þá skoðun að sennilega haldi eldvirknin sig við Holuhraun og ólíklegt að nokkur kvika komi upp í Bárðarbungu sjálfri.

Gosið í Holuhrauni er þegar oríð frægt í vísindaheiminum, en það er samt ekki stærsta gosið, sem er í gangi í dag. Kilauea á Hawaii hefur gosið stöðugt síðan 1983 og nú hefur komið upp á yfirborðið alls um 4 km3 af hraunkviku í því gosi, eða um fjórum sinnum meira en í Holuhrauni.