Ísbjarnastofninn hrynur

Ísbjarnastofninn hrynur

isbjarnastofninnÞeir eru ósköp sætir og feldirnir eru seldir dýrum dómum, en stofn ísbjarna er í mikilli hættu. Þeir eru líka mannætur, ef ekkert betra býðst.  Á hafísnum norður af Alaska (Beauforthaf) hefur stofninn dregist saman um 40% á tíu árum. Það eru húnarnir, sem fara verst út, en stofninn af ísbjörnum á þessu svæði er nú aðeins um 900 dýr.  Ein ástæðan fyrir hruni stofnsins er talin vera að hafísinn er veikur og þunnur, sem gerir selveiðar bjarnanna erfiðar. Hnattræn hlýnun er að eyða hafísnum og ísbjörninn er nú að verða “strandaður” á þurru landi, þar sem hann getur lítið veitt og leitar þá til mannabyggða. Sérfræðingarnir telja að stofninn verði horfinn af Beaufort svæðinu um miðja þessa öld með sama áframhaldi.  Alls munu vera eftir um 25 þúsund ísbirnir í heiminum, allir umhverfis norðurskautið.

Nú dvelja ísbirnir lengur á landi á öllu norðurskautssvæðinu vegna þess hvað hafísinn er veikur. Þess vegna eru árekstrar við fólk í byggð orðnir algengir og þá eru birnirnir tafarlaust skotnir. Ísbirnir eru sérhæfðir í að veiða sel á hafísnum. Þetta sést vel á annari myndinni, sem er gervihnattarmynd af Hudsonflóa í norður Kanada. Lituðu slóðirnar eru eftir ísbirni, sem eru útbúnir með GPS tækjum. Það kemur vel í ljós að þeir eyða nær öllum sínum tíma á hafísnum. Þar eru þeir kóngar í sínu ríki, veiða vel og hafa algjörlega aðlagað sig að þeirri náttúru og ísnum. Nú eru þeir neyddir til að eyða nokkrum hluta ársins á landi vegna þess að ísinn er veikur. Talið er að 700 til 900 bjarndýr séu veidd á ári hverju á norður slóðum. Þessi veiði er að lang mestu leyti vegna eftirspurnar af bjarnfeldum meðal auðmanna í öðrum löndum. Feldur af ísbirni er nú seldur á um $20 til 30 þúsund, eða um tvær til þrjár milljónir króna. Eftirspurn er einkum mikil í Kína og Rússlandi. Í sumar heimsótti ég þorpið Ittoqqortoormiit í mynni Skoresbysunds á austur Grænlandi, en hér hefur lengi verið ein mesta ísbjarnaveiðstöð Grænlands. Hér hafa verið drepnir milli 50 til 100 birnir á ári. Þeir eru aðallega drepnir í febrúar og mars og svo aftur í byrjun vetrar í september og október. Heimamenn kvarta yfir því að birnir séu ágengnir, en lítið eða ekkert er vitað um fjölda bjarna á þessu svæði.