Gosið heldur áfram

Gosið heldur áfram

sigjan2015Íslendingar eru nú orðnir svo vanir gosinu í Holuhrauni að það er varla minnst á það lengur í fjölmiðlum. En það heldur samt áfram og einnig heldur sigið áfram í Bárðarbungu. Reyndar var sambandsleysi við GPS mælinn í Bárðarbungu um tíma, en hann komst aftur í samband á gamlársdag og hefur sent frá sér gögn þar til í síðustu viku, en þá datt hann út aftur, samkvæmt vef Veðurstofunnar : “Ekkert samband nú sem stendur”. Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni. Línuritið sem fylgir hér með sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það er mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni. Samkvæmt þessu verður línan orðin lárétt (sig hættir) eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust (12. september 2014), eða í byrjun mars mánaðar 2015, eins og við höfum áður spáð hér í blogginu. Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu púnktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars.