Hvernig Grænlandsjökull myndaðist

Hvernig Grænlandsjökull myndaðist

graenlandsj0kullÍsöldin hófst fyrir um 2,7 milljón árum síðan, en þá hafði norðurhvel jarðar verið ísfrítt í meir en 500 milljón ár. Hvers vegna myndaðist þessi mikli jökull á Grænlandi? Var það eingöngu vegna þess að það tók að kólna, eða voru einhverjir aðrir þættir að verki? Það voru þrír þættir, sem virkuðu allir saman til að skapa aðstæður fyrir myndun Grænlandsjökuls. Í fyrsta lagi varð jarðskorpa Grænlands að lyftast upp þar til fjallatopparnir tóku að safna á sig snjó og ís í kaldara lofti. Í öðru lagi varð Grænland að reka nægilega langt norður, þar sem geislun sólar gætti minna að vetri til. Í þriðja lagi varð breyting á snúningsás jarðar, sem færði Grænland enn nær norðurpólnum. Þetta hafa Bernhard Steinberger og félagar hans í Þýskalandi rannsakað rækilega og birt í tímaritunum Terra Nova og Nature. Þeir hafa reynt að sameina þessi þrjú atriði á myndinni, sem fygir hér með. Sagan hefst fyrir um 60 milljón árum, þegar Grænland rak norðvestur á bóginn, yfir heita reitinn, sem nú er undir Íslandi (rauði hringurinn á myndinni). Af þeimn sökum þynntist jarðskorpa Grænlands og mikið magn af basalt hraunum safnaðist fyrir á yfirborði Grænlands frá vestri til austurs. Síðar streymdi möttull frá heita reitnum norður á bóginn (bleikar örvar) undir skorpu Grænlands, lyfti henni upp og þynnti skorpuna. Þetta möttulefni streymdi aðallega til austur Grænlands og lyfti upp svæðinu sem nú er Scoresbysund og Gunnbjarnarfjall, hæsti tindur Grænlands (rúml. 3700 metrar). Þá rak Grænland norðvestur á bóginn vegna þess að Norður Atlantshafið tók að opnast (dökkbláir hringir sýna hreyfinguna frá 60 milljón árum til okkar tíma). Að lokum hefur snúningsás jarðar mjakast töluvert (um 12 gráður), eins og grænu hringirnir sýna, frá 60 milljón og til okkar daga, en við það hefur Grænland færst enn nær norður pólnum. Í heildina hefur færslan norður á við verið um 18 gráður, nóg til að færa Grænland inn á svæði þar sem loftslag veldur jökulmyndun.