Flóttamenn eða ferðamenn?

Flóttamenn eða ferðamenn?

flo_769_ttamennFréttir berast um að varðskipið Týr hafi “bjargað” 320 manns á báti í Miðjarðarhafi og komu þeim í land á Ítalíu. Skyldu Ítalir nú fagna þessu framtaki íslensku Landhelgisgæslunnar?  Ég leyfi mér að efast um það. Það var fyrir rúmu ári að Ítalía hætti að líta á flóttamenn sem ólöglega innflytjendur og byrjaði að “bjarga” fjölda manna sem lögðu á hafið á litlum bátum frá norður strönd Afríku. Fréttin um að Ítalir tækju flóttafólki opnum örmum barst eins og eldur í sinu um alla Norður Afríku og öllum skekktum er nú ýtt á flot í átt til fyrirheitna landsins. Ítalía er nú orðin gáttin inn í Evrópu fyrir ólöglega innflytjendur. Það er talið að um 200 þúsund manns hafi komið frá Afríku árið 2014 til Ítalíu á þennan hátt, en þeir greiða frá eitt til tvö þúsund evrur til smyglara eðascafisti í Líbíu fyrir ferðina. Ítalska ríkið heldur þeim uppi fyrst í stað þegar þeir koma til fyrirheitna landsins, og er talið að það kosti landið um 43 evrur á hvern mann á dag, eða alls meir en fimm milljón evrur á dag! Þótt þeir hefji ferðina oftast frá Líbíu, þá er þetta fólk frá ýmsum löndum utan Afríku: Afganistan, Sýrlandi, Palestínu og Írak. Þegar til Ítalíu er komið er auðvelt að koma sér áfram í lest eftir stutta dvöl, til dæmis til Frakklands, því Schengen kerfið gerir öllum kleift að ferðast án vegabréfs, eftir að þeir eru komnir einhvers staðar inn í Evrópu. Í einfeldni okkar lítum við flest á svokallaða flóttamenn sem fólk á flótta undan pólitísku ofbeldi. Ég held að það sé rangt. Fólkið er fyrst og fremst í leit að tækifærum, atvinnu og bættum efnahag. Sumir eru einnig einfaldlega á flótta undan yfirvaldinu í heimalandinu vegna glæpastarfssemi. Hvenær verður þolinmæði ítalskra skattgreiðanda á þrotum? Þangað til hefur varðskipið Týr vinnu við þessa “björgun”.