Akstur um Vaðlaheiðargöng mun kosta milljarð á mínútu

Akstur um Vaðlaheiðargöng mun kosta milljarð á mínútu

fr_20150421_013060Það er ekki falleg myndin af Vaðlaheiðargöngum, sem birtist hér fyrir ofan og kemur frá RUV. Annar endinn er fullur af 46 stiga heitri gufu og hinn endinn er fullur af köldu vatni. Allar framkvæmdir virðast vera komar í stopp, nú þegar göngin eru hálfnuð. Allt bendir til að Vaðlaheiðargöngum hafi verið algjörlega klúðrað, bæði hvað snertir rannsóknir og undirbúnings verksins. Framkvæmdir hófust í ágúst 2012 og samkvæmt áætlun á gegnumslag að verða í september 2015. Þegar 46 stiga heit vatnsæð kom fram í greftri að vestan verðu í febrúar 2014, þá var verkinu snúið við og gröftur hófst austan frá. Þá kom þar fram mjög mikill leki, sem hefur nú stöðvað verkið.

Draumurinn var að þessi 7,4 km löngu göng spari ferðakostnað á norðurlandi. Eins og   Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur bent á í harðri ádeilu sinni á Vaðlaheiðargöng, þá er hinn áætlaði sparnaður ekki á rökum reistur. Vaðlaheiðargöng væru 15,7 km vegstytting og 11 mín tímasparnaður, miðað við akstur um Víkuskarð. Snemma á ferlinu var talað um 9 milljarða krónu kostnað við gangnagerð. Vandræðin sem nú blasa við benda til að kostnaður verði mjög miklu hærri. Ég spái að hann nágist 15 milljárða. Þá kosta göngin okkur milljarð á mínutu, í hvert sinn sem við ökum í gegnum þau.   Að spara 11 mínútur í akstri verður því dýrt spaug. Allt bendir til að eldsneytissparnaðurinn verði því mun lægri en kostnaðurinn vegna áætlaðra veggjalda.  Eins og Pálmi Kristinsson bendir á í skýrslu sinni, þá hefur undirbúningi verið klúðrað og reiknilíkön um rekstur ekki nægilega vel unnin. Sama má sennilega segja um könnun á svæðinu áður en gröftur hófst. Stófelldur leki og hátt hitastig í fjallinu eru þættir, sem ættu að koma fram við ítarlega rannsókn á jarðfræði fjallsins, en ekki uppgötvast í miðri framkvæmd. Svona fer, þegar stjórnmálamenn og verktakar ráða ferðum. Kostnaður við grunnrannsóknir er skorinn við nögl og verkinu flýtt eftir megni. Það vekur athygli að aðeins fimm kjarnaborholur voru gerðar til að kanna fjallið fyrirfram, samkvæmt skýrslum frá Vegagerðinni og frá Jarðfræðistofunni ehf.  Nú verður klúðrið afsakað sem afleiðing af ófyrirsjáanlegum vandamálum. En sannleikurinn er sá, að rannsóknir og forvinna voru alls ekki nægilegar til að hefja þetta verk. Sennilega verður nú þrjóskast við, og göngin kláruð, hvað sem það kostar. Enginn stjórnmálamaður dirfist að segja neitt, meðal annars vegna þess að þverpólítisk eining hefur ríkt um verkið, svipað og um Kröfluvirkjun hér fyrir um fjörutíu árum.

Í skýrsum varðandi ástand bergsins er minnst á að leki sé víða mikill í fjallinu, en það vekur óneitanlega eftirtekt að ekki var leki eða lekt bergsins mæld í neinu tilfelli við borun kjarnaborholanna. Það er tiltölulega auðveld aðgerð og hefði tvímælalaust sýnt fram á að búast mætti við miklu magni vatns í göngunum. Þar sem göngin eru íum 100 metra hæð yfir sjó, og jarðvatnsborð í fjallinu fyrir ofan er í um 500 metra hæð yfir sjó, er vel ljóst að vatnsþrýstingur getur verið gífurlegur og vatnsmagn mikið.