Eldfjallasafnið Stykkishólmi

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi

OUTSIDEEldfjallasafnið í Stykkishólmi
Aðalgata 6, 340 Stykkishólmur
Netfang: safn@eldfjallasafn.is Sími: 433 8154

 

Safnkostur

Í safni Haraldar eru mörg hundruð listaverka. Þar má nefna málverk, málmstungur og svartlist ýmiskonar frá eldvirkni um allan heim. Einnig er þar að finna frumstæða list (alþýðulist) frá Indónesíu, Mexíkó, Mið-Ameríku og víðar. Úrval er af japanskri „goslist“ einnig listmunir og safn minjagripa. Í safninu má m.a. finna stórt verk eftir Andy Warhol frá 1985 af eldgosi, myndir eftir Japanann Katsushika Hokusai (1760-1849), Mexíkanana David Alfaro Siqueiros og Dr. Atl, auk merkilegs safns af prentverki og plakötum af bíómyndum sem fjalla um eldgos. Haraldur hefur einnig komið sér upp vönduðu safni bóka um eldgos og eldfjallafræði auk rúmlega 6000 sérprentana með vísindagreinum og safni jarðfræðikorta. Loks má nefna töluvert safn kvikmynda og efnis á myndböndum. Allt er þetta efni í spennandi ferð um lendur jarðsögunnar, og fræðslu um eldvirkni víðs vegar um heim.

Uppruni og efniviður safnsins

haraldur_m_bakpokaEldfjallasafnið var opnað formlega á hvítasunnu, 31.maí 2009 með kynningarsýningu byggða á safni Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings. Haraldur Sigurðsson starfaði sem prófessor í eldfjallafræði og haffræði í Bandaríkjunum en er nú fluttur til Íslands eftir um 40 ára starf erlendis. Á ferðum sínum um heiminn og í störfum sínum hefur Haraldur komið sér upp miklu safni af efni, ýmiskonar listaverkum, rannsóknarefni og bókum sem snerta eldgos og eldvirkni víðsvegar um heiminn. Haraldur hefur nú lagt safn sitt fram sem kjarna til að stofna Eldfjallasafn í Stykkishólmi.

Aðstandendur & Styrktaraðilar

Stykkishólmsbær – Vulkan ehf –  Menningarráð Vesturlands – OrkusalanMENNINGARVITI-STIMPILL-prent10cm-red