Fræðsluferðir um Snæfellsnes – jarðfræði, eldfjöll og saga

Fræðsluferðir um Snæfellsnes – jarðfræði, eldfjöll og saga

Eldfjallasafn í Stykkishólmi stendur fyrir fræðsluferðum um Snæfellsnes. Þar er Nesið skoðað og fjallað um jarðfræði og eldfjöll undir handleiðslu Haraldar Sigurðssonar, eins mesta sérfæðings á þessu sviði.

Einnig er rætt um þá auðlegð sem Nesið hefur að geyma í tengslum við Íslendingasögur.

c Ólafur ValssonSnæfellsnes býður upp á ótrúlega fjölbreytni í jarðfræði, og má með sönnu segja að Snæfellsnes sé einskonar vasabókarútgáfa af jarðfræði Íslands, auk frábærrar náttúrufegurðar. Farin er hringferð um Snæfellsnes, og er ferðin um átta tímar alls. Stoppað verður á öllum helstu jarðfræðistöðum þar sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur veitir ítarlega leiðsögn. Ferðin er ekki aðeins kynnisferð, heldur skipulögð þannig að hún skilur eftir heilsteypta mynd af jarðfræði og landmótun í lok ferðarinnar hjá hverjum þátttakanda. Höfuðþættir í jarðsögu eru kannaðir, Tertíera blágrýtismyndunin, jökulberg og setmyndanir með skeljalögum frá ísöld, myndun móbergs og hraun og gjóskuberg frá nútíma. Auk þess fá þátttakendur tækifæri til að skoða djúpberg og innskot af granófyr og gabbró. Þannig er hver ferð, ásamt fyrirlestrum í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, einskonar námskeið um jarðfræði Íslands. Merkir staðir í jarðfræði Íslands verða kannaðir í ferðinni, þar á meðal Drápuhlíðarfjall, Kerlingarfjall, Snæfellsjökull, Búlandshöfði, Berserkjahraun og fleiri. Farið er í stuttar gönguferðir á þessum stöðum.
Snæfellsnes er sögusvið Eyrbyggju og Bárðar sögu Snæfellsáss, og verður vettvangur þeirra kynntur á leiðinni. Upplýsingar um ferðirnar er hægt að fá í síma 433 8154 eða með því að senda tölvupóst á safn@eldfjallasafn.is

Snæfellsnes

2012 bættist nýr kafli í Eldfjallasafnið í Stykkishólmi. Sýning um jarðfræði Snæfellsnes hefur verið komið fyrir í safninu með efni eftir Harald Sigurðsson. Á stóru jarðfræðikorti má sjá áhugaverðar upplýsingar og á spjaldtölvum á kortinu er mikið magn upplýsinga sem tengjast kortinu. Þar er m.a. að finna einstakar ljósmyndir bæði af jöklum, hraunum og ýmsum náttúruundrum á Snæfellsnesi.